Þetta er vinnan mín!

Kæru Hafnfirðingar.

Nú fer senn að líða að kosningu um stækkun álversins í Straumsvík. 800 störf eru í húfi og eins gott að taka rétta ákvörðun. Ég hef unnið í áliðnaði á áttunda ár og hugmynd mín með þessari færslu er að fræða þá sem ekki vita hvað fer fram innan veggja álversins. 

Kerin
Fyrst ber að nefna kerin sem eru í gangi inn í kerskála. Eru þau aðalástæða þess að Alcan hótar lokun ef ekki verður af stækkun. Staðreyndin er samt sú að þeir geta ekki breytt kerjunum í skálunum sem fyrir eru, sem þýðir að þau verða alltaf eins og þau eru. Þessi gömlu ker verða vel nýtanleg eftir stækkun í núverandi mynd. Þau eru að skila um og yfir tveggja milljarða króna hagnaði á ári hverju í núverandi ásigkomulagi.  

Mengunin
Ef hugað er að menguninni er staðreyndin sú að fleiri ker menga meira en færri. Þó svo að hreinsikerfið sé gott, þá fer mengunin út í andrúmsloftið þegar verið er að þjóna kerjunum. Sem þýðir, þjóna fleiri kerjum, fleiri opin ker og meiri mengun. Hvernig er hún mæld? Ég hef orðið vitni að því að mælingar hafa verið stundaðar þegar engin ker eru opin og engin vinna er í gangi en einnig er mælt í andrúmsloftinu í kringum verksmiðjuna, sem ættu að skila áreiðanlegri niðurstöðum. Mín mæling er sú að ég snýti svörtu úr nefinu eftir vinnudaginn. Annað er það sem við verðum að spá í sem Íslendingar, það er Kyoto-bókunin. Samkvæmt henni og útfærslu hennar gagnvart Íslandi eru útstreymisheimildir Íslands tvíþættar: Í fyrsta lagi skal almennt útstreymi gróðurhúsalofttegunda frá Íslandi ekki aukast meira en sem nemur 10% frá árinu 1990, það er vera innan við 3.100 þúsund tonn koltvíoxíðígilda árlega að meðaltali 2008 til 2012. Í öðru lagi skal koltvíoxíðútstreymi frá nýrri stóriðju eftir árið 1990 ekki vera meiri en 1.600 þúsund tonn árlega að meðaltali árin 2008-2012.
Þetta eru stórar tölur að mínu mati, samt þurfum við að fá undanþágur frá þessari bókun því við erum að fara að menga meira. Margir hafa samt rökstutt þessa mengun og bent þar á að við mengum á svo hreinan hátt, orkan okkar er svo faglega unnin. Ég hef farið á það sem ég vill kalla heilaþvott Orkuveitunnar. Þar kynntu þeir fyrir okkur álversstarfsmönnunum hversu lítið Ísland mengar á við Kína. Svo sýndu þeir hvað hver Kínverji mengar per fermeter og svo hvað hver Íslendingur mengar per fermeter. Fín tafla og Íslendingurinn á langt í land, en hvað með það, glöggir menn sjá í gegnum þetta, við erum færri per fermeter. Er það eftirsóknarvert að ná sjálfum Kínverjum í mengun?  

Segulsviðið
Innan veggja álversins er svokallað segulsvið. Enginn veit hvaða áhrif þetta segulsvið hefur á fólk og hafa engar rannsóknir verið gerðar á því. En þetta lýsir sér þannig að ef farið er inn í álverið er ekki hægt að vera með gangþráð því hann truflast. Það er ekki hægt að vera með greiðslukort, sögulröndin verður ónothæf. Vísaúr ganga hægar, þau truflast. Naglar eða skrúfur sem falla í gólfið standa beint upp í loftið. Ef haldið er á einhverju járni eða hlut úr sambærilegu efni, þá togast hluturinn í átt að kerinu, líkt og tveir hlutir sem seglast saman.   

Súrál
Vinnan í álverinu snýst um það að kljúfa súrál sem kemur með súrálskipum. Súrálið er klofið með rafmangni í kerjum kerskálans. Rafmagnið fá erlend álfyrirtæki á mun lægra verði heldur en hinn almenni borgari. Eflaust sanngjart vegna magnkaupa en samt íslensk orka sem við eigum að nýta okkur og selja dýrar.  

Slysatíðni
Það er hættulegt að vinna í álveri. Hættur eru margar en íslensku álverin eru með þeim öruggustu í heiminum. Þar ber helst að nefna góða íslenska starfsmenn. En einnig er það nú þannig á mínum vinnustað að það er haldið upp á slysalaus tímabil, enginn vill spilla gleðinni fyrir öðrum svo menn mæta í misjöfnu ástandi til að vera ekki sá sem öllu spillti. Þekktasta dæmið um þetta er risastórt skilti sem stóð á bílastæði Alcan, þetta skilti taldi slysalausa daga, en það var tekið niður eftir dauðaslys.   

Störfin
Störfin innan álversins og í kringum það eru mörg og fjölbreytt. Fyrirtæki tengd álverinu fá fleiri verkaefni með stækkun og kannski græða meira en þeir gera í dag. En störfin sem eru sögð í hættu verða áfram, ef ekki verður að stækkun verða þau bara einfaldlega áfram í sömu mynd. Ef Alcan ætlar að loka þá get ég lofað því að einhver vilji kaupa fyrirtæki sem græðir í milljörðum á ári, svo lokunin er ekki raunveruleg í mínum huga.    

Framtíðin
Ég ætla ekki að taka afstöðu með eða á móti en vonandi hafa þessar upplýsingar hjálpað þeim sem ekki gátu tekið afstöðu fyrir. En spennandi verður samt að vita hvað gerist ef þessari stækkun verður hafnað, því mín spá er sú að þeir stækki samt.


Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góð grein, mjög góð grein! ;)

Hadda Hrund (IP-tala skráð) 4.3.2007 kl. 21:53

2 Smámynd: Margrét Elín Arnarsdóttir

Það er þó því miður staðreynd að öll álver í heiminum í dag eru að verða miklu stærri en þetta álver, sökum hagkvæmni. Þ.a.l. er harla ólíklegt að e-r vilji kaupa álver sem ekki er hægt að stækka upp í hagkvæmari stærð - bláköld staðreynd. Ef þetta álver lokar, þá lokar það.

Margrét Elín Arnarsdóttir, 4.3.2007 kl. 23:38

3 Smámynd: Guðmundur Ragnar Björnsson

Hér er um að ræða 800 störf í frumframleiðslu sem eru jú störfin sem öll hin afleiddu störfin frá skúringakonu til bankastjóra (ekki verið að gera greinarmun á atvinnu fólks) byggjast á. Ef engin er frumframleiðslan hvar verða þá peningarnir til. Hættum bara að framleiða ál, sendum bændur á eftirlaun og vonum að fiskistofnarnir stingi ekki af þá verður örugglega bullandi hagvöxtur af verðbréfaviðskiptunum einum saman.

Guðmundur Ragnar Björnsson, 5.3.2007 kl. 19:58

4 Smámynd: Þórður Steinn Guðmunds

Nei kæra Arndís þessi 800 störf eru og verða, en eru í húfi í því samhengi að ef það verður ekki af stækkun þá er því hótað að þetta fólk missir vinnuna en það koma engin 800 störf í viðbót með þessari stækkun mestalagi um 200.

Þórður Steinn Guðmunds, 5.3.2007 kl. 20:01

5 Smámynd: Sigríður Laufey Einarsdóttir

Takk fyrir fræðandi upplýsinga, vonandi meira síðar. Þarf ekki beinlínis að taka ákvörðun um álver í Kópavogi því við höfun Gunnar Birgisson. Kárahnjúkavirkjun gerði atvinnumöguleika að verukeika í mínu gamla byggðarlagi, Fljótsdalshéraði. Nú getur unga fólkið  horft til framtíðar. Mín kynslóð varð að leita suður hvort sem hún vildi eða ekki.  Hingað á Reykjavíkursvæðið hefur verið stöðugur straumur fólks af landsbyggðinni alla síðustu öld og það sem af er þessari. Ég samgleðst unga fólkinu fyrir austan að geta verið um kyrrt eða komið heim aftur eftir menntun sína.

Við eigum að nýta vatnsorku okkar skynsamlega t.d. með því að virkja við Húsavík til að styrkja atvinnulífið þar.Ekki endilega að setja öll atvinnutækifæri hingað suður.

Að mínu mati er skynsamlegt að nýta orkuna til að skapa sterkt atvinnulíf í byggðum landsins. Allt mannlíf verður blómlegra ekki síst landbúnaður og þjónustuiðnaður.

Sigríður Laufey Einarsdóttir, 5.3.2007 kl. 21:46

6 Smámynd: María Anna P Kristjánsdóttir

Góð grein ,sérstaklega fyrir þá sem eru óákveðnir.

María Anna P Kristjánsdóttir, 8.3.2007 kl. 10:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Þórður Steinn Guðmunds

Höfundur

Þórður Steinn Guðmunds
Þórður Steinn Guðmunds
Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband